Þegar tannréttingameðferð hefur verið ákveðin þarf að afla gagna sem eru m.a. afsteypur af tannbogum, röntgenmyndir af höfði og tönnum ásamt ljósmyndum.
Tilgangur gagnatökunnar er að:
Þegar meðferðaráætlunin hefur verið unnin verður hún rædd. Farið verður yfir kostnað vegna meðferðarinnar sem og áætlaðan tíma verksins. Þá gefst einnig tækifæri til að svara spurningum.
Í sumum tilfellum er nauðsynlegt að fjarlægja tennur áður en meðferð hefst. Mjög mikilvægt er að viðkomandi hafi nýlega verið skoðaður af tannlækni áður en tannréttingatæki eru sett upp. Við mælum með skoðun hjá tannlækni á sex mánaða fresti á meðan meðferð stendur.
Tannréttingarmeðferð tekur yfirleitt tvö til þrjú ár. Hún getur tekið skemmri tíma, en einnig lengri ef um flókna meðferð er að ræða. Dæmi um það er vaxtaraðlögunarmeðferð, en þá hefst meðferðin með gómum og eða beisli og lýkur með föstum tækjum eða teinum.
Gangur meðferðarinnar er mjög breytilegur eftir eðli og umfangi skekkjunnar. Vaxtaraðlögun hefst oft í blandaða tannsettinu. Blandað tannsett er það kallað þegar hluti tannsettsins eru fullorðinstennur og annar hluti barnatennur. Föst tæki eru sjaldan sett upp fyrr en að tannskiptum loknum.
Uppsetning fastra tækja tekur rúman klukkutíma. Tannréttingabogar eru síðan notaðir til að færa tennurnar í æskilega stöðu. Þrýstingur sem orsakast vegna þeirra veldur því að tennurnar verða aumar í tvo til þrjá daga eftir hverja aðlögun. Tækin eru stillt á fjögurra til sex vikna fresti.
Góð tannhirða er sérlega mikilvæg á meðan tannréttingameðferð stendur. Aukin hætta er á tannskemmdum ef burstun er ekki nægileg. Eftir að föstu tækin hafa verið sett upp er farið yfir hvernig best er að bursta tennur með teinum.
Einnig er ráðlagt að forðast harða fæðu þar sem hún getur losað tækin.
Þrýstingur frá tækjunum geta valdið óþægindum allt að fimm dögum eftir ísetningu. Eftir aðlögunartíma sem eru á fjögurra til sex vikna fresti vara óþægindin sjaldan lengur en í einn sólarhring.
Í lok meðferðar eru tækin fjarlægð og stuðningsbogar settir upp á bakvið framtennur efri og neðri góms. Lítið fer fyrir stuðningsbogunum en þeir eru nauðsynlegir til að koma í veg fyrir að þær skekkist aftur. Einnig þarf að styðja við jaxla efri góms með stuðningsgómi.