Gómar/Forvarnarmeðferðir
Börn á aldrinum sjö til níu ára geta verið með þvingað bit eins og krossbit sem er æskilegt að leysa snemma til að koma í veg fyrir stærra vandamál síðar.
Þvingun í biti geta valdið vaxtarskekkjum í kjálkum og gómur til víkkunar efri kjálkans er dæmi um slíka forvarnarmeðferð.
Forvarnarmeðferðir eru styttri meðferðir á aldrinum 7-9 ára og taka að meðaltali eitt ár. Eftir tannskiptin eða á unglingsárum og í fullorðnum er algengast að nota föst tæki eða teina.
Tannréttingar snúast einnig um að stýra eða hafa áhrif á vöxt andlitsbeina en slíkar meðferðir eru kallaðar vaxtaraðlögunarmeðferðir. Meðferð við yfirbiti er dæmi um vaxtaraðlögunarmeðferð.
Yfirbit
Yfirbit er þegar efri tannbogi er framar en neðri tannboginn og engin snerting milli framtanna efri og neðri góms. Aukin hætta er á tannbrotum við slíkt bit, einnig er hætta á að framtannahalli aukist með tímanum. Misræmi í vexti kjálkanna er algengasta ástæða yfirbits. Neðri kjálkinn liggur þá aftar miðað við efri.
Undirbit
Undirbit er þegar neðri tannboginn eða neðri kjálkinn liggur framar en sá efri. Slithætta er aukin á framtannasvæði og í flestum tilfellum er um misræmi í vexti kjálkanna að ræða.
Opið bit
Opið bit er þegar bil er á milli efri og neðri framtanna við samanbit. Ýmsar orsakir geta verið fyrir opnu biti. Misræmi í vexti kjálkanna og þumalsog og langvarandi snuðnotkun barna sem dæmi.
Þrengsli
Ef misræmi er á milli stærð tanna og kjálka myndast þrengsli og tennur eru snúnar og í vissum tilfellum komast tennur ekki upp við tanntöku. Erfiðara er að halda tönnum hreinum og meiri líkur á skemmdum og tannholdssjúkdómum á fullorðinsárum.